LazyTown

Sérhver hetja þarf að hafa þrjót til að kljást við og þar kemur Glanni glæpur til sögunnar.

Glanni glæpur á mjög erfitt með að sætta sig við að krökkunum í Latabæ finnist Íþróttaálfurinn flottastur. Sér í lagi þar sem honum finnst Íþróttaálfurinn vera ömurlegt dæmi um hinn sanna Latabæjarbúa. 

Glanni glæpur saknar mjög gömlu góðu letidagana í Latabæ áður en Íþróttaálfurinn og Solla stirða komu til sögunnar og náðu að eyðileggja allt að hans mati. Það eina sem getur dregið Glanna frá óhollustunni og sjónvarpsglápinu er þegar hann finnur upp á einhverju ráðabruggi sem getur komið Íþróttaálfinum í vandræði.

Helsti draumur Glanna glæps er að koma Íþróttaálfinum úr jafnvægi með einhverjum hætti og það heldur honum mjög uppteknum. Glanni er því sennilega duglegasta lata manneskja sem þú getur fundið.

Glanni glæpur er snillingur í dulargervum sem hann bregður sér í til þess að geta veitt Íþróttaálfinn í einhverja af sínum illkvittnu gildrum. Þessar gildrur eru sérstaklega hannaðar til þess að gera Íþróttaálfinn að athlægi bæjarins. Glanni er reyndar ekki klárari en svo að hann festist ætíð sjálfur í sínum eigin gildrum og einhvern veginn mislukkast alltaf þessi „frábæru“ áform hans.