LazyTown

Íþróttaálfurinn er engin venjuleg ofurhetja. Hann borðar mikið af íþróttanammi, ávöxtum og grænmeti, sem gefur honum mikla orku. Hann er í fanta formi, fimur og frábær fimleikamaður sem er fljótur til taks. Íþróttaálfurinn er stöðugt á ferð og flugi og hefur unun af því að nota einfalda hversdagslega hluti á alveg ótrúlega magnaðan máta. Það er engin furða að hann skuli búa í loftskipi.

Íþróttaálfurinn á sérstakan kristal sem lýsist upp og tilkynnir honum ef einhver er í vanda staddur. Þar sem hann er mjög upptekinn við að aðstoða Latarbæjarbúa í hinum ýmsu vandamálum verður hann að passa upp á að halda orkunni við og það gerir hann með því að fara alltaf snemma í háttinn, eða klukkan 8:08.

Íþróttaálfurinn er þolinmóður, vingjarnlegur og skilningsríkur. Hann segir krökkunum ekki fyrir verkum heldur kýs hann að vera góð fyrirmynd.